Kristófer Acox er enn ekki komin með félagaskipti í Val frá KR nú þegar vika er í að Íslandsmótið í körfubolta hefjist.
Körfuknattleiksdeild Vals kynnti Kristófer sem nýjan leikmann félagsins fyrir hálfum mánuði. Hann hafði átt í launadeilum við KR sem ekki fannst lausn á. KR sagðist í yfirlýsingu hafa boðið Kristófer „mjög sanngjarna lausn“ en landsliðsmaðurinn kaus að fara á Hlíðarenda.
KR-ingar hafa samkvæmt upplýsingum Vísis ekki viljað skrifa undir félagaskipti Kristófers og er málið nú komið inn á borð aga- og úrskurðanefndar KKÍ. Ætla má að nefndin heimili félagaskipti Kristófers, líkt og í tilviki Kristins Marinóssonar sem fór frá Haukum til ÍR árið 2016, á þeim forsendum að samningi leikmanns við hans fyrra félag hafi ekki verið skilað inn til KKÍ samkvæmt reglugerð.
„Ég get staðfest að þetta félagaskiptamál sé komið inn á borð aga- og úrskurðarnefndar, sem mun taka málið fyrir á næstunni,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, í samtali við Vísi.
Óvíst er að aga- og úrskurðanefnd verði búin að fá öll gögn, meta þau og kveða upp úrskurð áður en keppni í Dominos-deildinni hefst. Fyrsti leikur Vals er á föstudaginn eftir viku, gegn deildar- og bikarmeisturum Stjörnunnar.