Viktor Gísli Hallgrímsson var frábær í marki GOG þegar liðið varð danskur bikarmeistari í handbolta í fyrsta sinn í 15 ár. Viktori var vel fagnað af samherjum eftir leik.
GOG vann Óðinn Þór Ríkharðsson og félaga í Holstebro í æsispennandi úrslitaleik, 30-28. Anders Zachariassen innsiglaði sigur liðsins með marki sex sekúndum fyrir leikslok.
Viktor Gísli varði 12 skot af 36 sem hann fékk á sig í leiknum og var því með 33% markvörslu, en hér að neðan má sjá nokkur af tilþrifum íslenska landsliðsmarkmannsins og hvernig honum var fagnað í leikslok. Óðni tókst ekki að finna leiðina framhjá honum í leiknum en átti þrjú skot.
„Ég er í sjöunda himni. Þetta er alveg geggjað enda um að ræða minn fyrsta stóra bikar í meistaraflokki,“ segir Viktor Gísli í viðtali við handbolti.is. Þar benti hann á að gleðskapurinn eftir sigurinn yrði hófstilltur vegna komandi leiks við Pfadi Winterthur í undankeppni Evrópudeildarinnar. GOG heldur utan í þann leik með níu marka forskot, eftir stórleik Viktors í fyrri leiknum.
Ölið fékk þó að flæða í búningsklefa GOG eftir sigurinn og titlinum var vel fagnað eins og sjá má: