„Svona eiga þingmenn ekki að tala. Gott og gilt að biðjast afsökunar en ummælin minna óneitanlega á þá kynferðislegu áreitni sem þingmaðurinn sýndi af sér og léleg viðbrögð hans í kjölfar opinberunar hennar.“
Svo skrifar Ragna Sigurðardóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna, um flokksbróður sinn Ágúst Ólaf Ágústsson um leið og hún deilir frétt þar sem fjallað er um ummæli sem Ágúst Ólafur lét falla í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni um helgina. Ragna virðist lítt hrifin af framkomu þingmannsins.
Í þættinum talaði Ágúst Ólafur um „ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar,“ fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokks, og sagði að það væri í raun hann sem stjórni verkum ríkisstjórnarinnar en ekki Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Þessi orð hans hafa sætt gagnrýni, meðal annars af hálfu Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, sem sagði Ágúst Ólaf sýna „botnlausa kvenfyrirlitningu“ með orðum sínum. Í dag baðst Ágúst Ólafur svo afsökunar á ummælum sínum.
Svona eiga þingmenn ekki að tala. Gott og gilt að biðjast afsökunar en ummælin minna óneitanlega á þá kynferðislegu áreitni sem þingmaðurinn sýndi af sér og léleg viðbrögð hans í kjölfar opinberunar hennar. https://t.co/szSulSw7Bn
— Ragna Sigurðardóttir (@ragnasig) October 5, 2020
Í færslu sinni vísar Ragna til þess þegar Ágúst Ólafur fór í launalaust leyfi í desember 2018 vegna framkomu sinnar í garð blaðakonu um sumarið það sama ár. Ágúst Ólafur snéri aftur til starfa á Alþingi vorið 2019.
„Allt þetta hlýtur að hafa áhrif á stöðu hans fyrir næstu alþingiskosningar,“ skrifar Ragna ennfremur við færslu sína á Twitter. Auk þess að vera nýlega kjörin formaður Ungra jafnaðarmanna er Ragna borgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík.