NBA stjörnur eru misjafnar og þær eru margar. Russell Westbrook er í hópi þeirra sem sýna náungakærleikann í verki.
NBA stjarnan Russell Westbrook var heldur betur rausnarlegur við herbergisþernurnar á hótelinu þar sem hann eyddi löngum tíma í NBA bubblunni. Blaðamaðurinn Brad Townsend hjá The Dallas Morning News sagði frá gjafmildi Russell Westbrook.
Russell Westbrook eyddi löngum tíma á Grand Floridian hótelinu í Disney World en allir leikmenn þurftu að halda sig innan NBA bubblunnar á meðan tímabilið var klárað.
Russell Westbrook og félagar í Houston Rockets liðinu duttu út 4-1 á móti Los Angeles Lakers í undanúrslitum Vesturdeildarinnar. Westbrook var með 17,9 stig, 7,0 fráköst og 4,6 stoðsendingar í úrslitakeppninni í ár.
Russell Westbrook left an $8,000 tip for the hotel housekeepers when the Rockets left the NBA bubble.
— Complex Sports (@ComplexSports) October 6, 2020
(via @townbrad) pic.twitter.com/v7lgDMPCrh
Þegar Russell Westbrook yfirgaf hótelið þá ákvað hann að skilja eftir átta þúsund dollara þjórfé handa herbergisþernunum á hótelinu en það er meira en milljón í íslenskum krónum.
Það fylgir líka fréttinni hjá The Dallas Morning News að herbergið hans Russell Westbrook hafi verið til fyrirmyndar þegar kemur að góðri umgengni.
The Rockets liðið var á hótelinu frá 9. júlí til 13. september. Auk þess að halda herberginu hreinu þá þurftu herbergisþernurnar að gera meira en vanalega vegna sóttvarna út af COVID-19.
Houston Rockets liðið var eina liðið á hótelinu frá og með 3. september því þá voru öll hin liðin á hótelinu úr leik í úrslitakeppninni. Það er líklegt að hafi styrkt enn frekar tengslin á milli leikmanna liðsins og starfsfólk hótelsins.
Russell Westbrook hefur alveg efni á að gefa veglegt þjórfé. Hann fékk meira en 38 milljónir dollara frá Houston Rockets fyrir þetta tímabil eða meira en 5,2 milljarða króna.