Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust tvær tilkynningar um líkamsárásir í gærkvöldi.
Önnur tilkynningin barst um hálfsjö og hin um hálfellefu en í báðum málunum var gerandi farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að garði. Í öðru tilvikinu var sá sem ráðist var á fluttur á bráðamóttöku.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar segir einnig frá tilkynningu sem barst laust fyrir klukkan hálftíu í gærkvöldi um menn í slagsmálum í fjölbýlishúsi.
Þegar lögreglumenn komu á vettvang þurftu þeir að stía mönnunum í sundur. Síðan var rætt við þá á vettvangi og þeir voru svo frjálsir ferða sinna.
Skömmu fyrir hálftíu var síðan tilkynnt um unglinga sem voru að hoppa á vélarhlíf mannlausrar bifreiðar með tilheyrandi skemmdum á vélarhlífinni. Málið var afgreitt með aðkomu foreldra.
Þá voru nokkrir ökumenn teknir í gærkvöldi og nótt grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.