Hafist var handa við að þrífa stóra áletrun á vegg við Skúlagötu í miðbæ Reykjavíkur síðdegis í dag. Á veggnum stóð málað stórum stöfum „Hvar er nýja stjórnarskráin?“ en verkið var málað á laugardag. Það hafði því aðeins fengið að standa í tvo sólarhringa.
Veggurinn stendur við Sjávarútvegshúsið, húsnæði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, og hefur iðulega verið þakinn veggjakroti, sem virðist hingað til hafa fengið að standa að mestu óáreitt.

Katrín Oddsdóttir formaður Stjórnarskrárfélagsins segir í samtali við Vísi að það skjóti skökku við að verkið sem málað var á vegginn á laugardag hafi verið fjarlægt svo fljótt í ljósi þess að engin afskipti hafi verið höfð af veggjakrotinu hingað til. Hún líti á verknaðinn sem þöggun.
Vísir hefur sent Ríkiseignum fyrirspurn vegna málsins. Myndband af þvottinum í dag má sjá hér að ofan og hér að neðan má sjá færslur um málið á samfélagsmiðlum í dag.
Hvað er að gerast!!!!!! Veggur sem hefur verið útkrotaður í mörg ár og er ekki í einkaeigu er þrifinn 2 dögum eftir að "Hvar er nýja stjórnarskráin?" er skrifað á hann. Hver fyrirskipaði þetta og af hverju? pic.twitter.com/qA0fONP3ax
— Steiney Skúladóttir (@steiney_skula) October 12, 2020
Það eru einhverjir menn að fjarlægja risastóra Hvar er nýja stjórnarskráin? merkið!!! pic.twitter.com/QCZybE4Lks
— Fríða (@Fravikid) October 12, 2020