Nokkur hundruð manns komu saman við sendiráð Póllands í Þórunnartúni í gærkvöldi og mótmæltu nýjum þungunarrofslögum í Póllandi.
Dómur stjórnlagadómstóls þýðir að þungunarrof verður nú bannað í nær öllum tilfellum í landinu og einungis heimilt í tilfelli nauðgunar, sifjaspells eða þegar líf eða heilsa móður er í hættu.
Mótmælin fyrir utan sendiráðið virðast hafa farið fram með rólegum hætti. Fólk bar grímur og hélt á skiltum sem sýndu andstöðu við nýju lögin. Mótmælt var á sama stað á föstudaginn þegar lögin voru nýsett.
Að mótmælunum loknum gekk hópurinn niður í miðbæ Reykjavíkur og kallaði baráttuorð á pólsku eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan.
#jebacpis #StrajkKobiet #ToJestWojna w Reykjavík 🇮🇸 pic.twitter.com/rdxxsNFeIV
— Michał Drewienkowski (@MDrewienkowski) October 26, 2020
Löggjöf Póllands þegar kemur að þungunarrofi þykir ein sú strangasta í álfunni og segir í frétt BBC að áætlað sé að um 100 þúsund konur leiti til annarra landa á hverju ári til að gangast undir þungunarrof vegna hinna ströngu reglna.
Mikil mótmæli hafa verið í Póllandi undanfarna daga og hefur lögregla beitt piparúða.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur miklar áhyggjur af stöðu mála í Póllandi. Hún hvetur til þess að fólk láti í sér heyra þegar brotið er á réttindum kvenna og standa vörð um jafnrétti.
Deeply concerned about recent developments in Poland regarding women’s sexual & reproductive health & rights. The gender equality backlash around the world is alarming. We must continue to safeguard gender equality & women’s rights and speak out when we see these rights violated.
— Katrín Jakobsdóttir (@katrinjak) October 26, 2020