Tæplega níutíu manns hafa smitast í hópsýkingu sem tengist Landakoti. Yfirmaður sýkingavarna á spítalanum segir atburðarásina benda til að eitthvað hefði mátt betur fara í sýkingavörnum.
Nú hafa 86 manns smitast í hópsýkingunni á Landakoti þar af 52 sjúklingar og eru 42 af þeim á Landspítala og 34 starfsmenn þar af eru 25 starfsmenn Landspítalans.
Landspítalinn og landlæknir sendu í dag frá sér tilkynningu þar sem kemur fram að spítalinn skoðar hópsýkinguna með smitrakningu og njóti í því verkefni fulltingis smitrakningarteymis almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra. Upplýsingamiðlun um þann lærdóm verði fumlaus þegar þar að kemur. Þá er bent á að að það þurfi að skapa mannauðnum þar nauðsynlegun vinnufrið og honum sé veitt sú virðing sem hann eigi skilið.
Ólafur Guðlaugsson smitsjúkdómalæknir og yfirmaður sýkingavarnadeilda Landspítalans segir ítarlega rannsókn í gangi á hvað gerðist. Aðspurður um hvort sýkingavörnum á Landakoti hafi verið áfátt segir Ólafur:
„Það er ekki augljóst að svo komnu máli en auðvitað bendir atburðarásin á að eitthvað hafi mátt betur fara já,“ segir Ólafur.
Fram hefur komið að í upphafi hópsmitsins á Landakoti hafi bæði sjúklingur og heilbrigðisstarfsmaður þar greinst nánast samtímis með veiruna. Ólafur segir að oft sé ekki hægt að finna eina orsök á hópsmiti.
„Það verður að segjast eins og er að það finnst ekki alltaf ein orsök fyrir hópsmiti. Þetta eru samskipti fjölda manns. Í fyrri uppákomum sem hafa orðið hér á spítalanum má segja að skýringarnar hafi verið alls konar,“ segir hann.