Allir minkar í Danmörku, hátt í sautján milljónir talsins, skulu aflífaðir eins fljótt og hægt er vegna stökkbreytingar kórónuveiru, sem greinst hefur í minkum og borist í mannfólk. Þetta tilkynnti Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur á blaðamannafundi í dag.
Frederiksen sagði stöðuna „gríðarlega alvarlega“ og að þessi stökkbreytingin gæti reynst væntanlegu bóluefni við kórónuveirunni fjötur um fót.
„Stökkbreytt afbrigði veirunnar í minkum getur haft þá hættu í för með sér að væntanlegt bóluefni virki ekki eins og skyldi,“ sagði Frederiksen á blaðamannafundi.
Veiran hefur nú greinst hjá 207 minkabúum á Jótlandi. Þá eru staðfest dæmi um að stökkbreyting veirunnar dragi úr mótefnanæmi.
„Þetta gæti haft hræðilegar afleiðingar fyrir faraldurinn um allan heim. Hætta er á því að stökkbreytt afbrigði veirunnar berist til annarra landa,“ sagði Frederiksen.
Minkabændur hafa lýst málinu sem „dauðadómi“ stéttarinnar í Danmörku. Ríkisstjórnin hefur þó boðað bætur og styrki fyrir bændurna til að stemma stigu við efnahagslegu tjóni.