Leik Íslands og Armeníu í undankeppni EM U-21 árs landsliða hefur verið frestað. Leikurinn átti að fara fram á Kýpur miðvikudaginn 18. nóvember.
Í frétt á heimasíðu KSÍ segir að frekari upplýsinga frá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, sé beðið. Ennfremur kemur fram að óvíst sé hvort leikurinn fari yfirhöfuð fram.
Leikurinn átti upphaflega að fara fram í Armeníu en var færður til Kýpurs vegna stríðsástand þar í landi.
Ísland á þrjá leiki eftir í sínum riðli í undankeppni EM. Íslendingar mæta Ítölum á Víkingsvelli á fimmtudaginn og Írum ytra á sunnudaginn.
Ísland er í 4. sæti riðilsins með fimmtán stig og á í harðri baráttu við Ítalíu, Írland og Svíþjóð um að komast á EM.
