Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, baðst í dag afsökunar og sagði að danska dýra- og matvælaeftirlitið hefði gert mistök með því að krefjast þess að allir minkar landsins verði drepnir. Það var gert eftir að stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar greindist í dýrunum.
Óvissa ríkir nú um hvort minkarnir verði drepnir en í ljós hefur komið að ríkisstjórnin hefur ekki lagalega heimild til að fyrirskipa slíkt.
Því baðst Frederiksen, sem tilkynnti sjálf um fyrirskipunina í upphafi mánaðar, afsökunar. Sagði ábyrgðina hvíla á herðum Mogens Jensens, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra.
Jakob Ellemann-Jensen, leiðtogi stjórnarandstöðuflokksins Venstre, var gagnrýninn á Frederiksen á þingi í dag og spurði hvort hún ætlaði ekki sjálf að axla ábyrgð á ólöglegu fyrirskipuninni.
Forsætisráðherrann sagði að ríkisstjórnin þyrfti vissulega að axla ábyrgð en ólögmæti fyrirspurnarinnar breytti þó engu um alvarleika málsins.