Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sendu íslensku landsliðunum sem verða í eldlínunni í dag góðar kveðjur fyrir hönd þríeykisins svokallaða í lokaorðum sínum á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir því ungverska í Búdapest í umspili um sæti á EM klukkan 19:45 í kvöld. Með sigri komast Íslendingar á þriðja stórmótið í röð.
Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta mætir Slóveníu á Krít í undankeppni EM klukkan 15:00.
„Að lokum langar okkur að senda baráttukveðjur til landsliðanna okkar sem eru að spila í dag,“ sagði Víðir á upplýsingafundinum í dag.
„Þetta er ströng barátta í skugga faraldursins. Ýmislegt hefur komið upp á síðustu daga. Mig langar að senda kveðjur til þessara fulltrúa okkar. Við vitum að þið munið leggja ykkur öll fram, gera ykkar besta, skilja allt eftir á vellinum, sýna sannan baráttuanda og við þurfum svo sannarlega á því að halda hér heima. Gangi ykkur vel.“
Báðir landsleikirnir verða í beinni textalýsingu á Vísi sem og leikur U-21 árs landsliðs karla í fótbolta gegn Ítalíu sem hefst klukkan 13:15. Þá verða bæði leikir A- og U-21 árs landsliðanna í fótbolta sýndir beint á Stöð 2 Sport.

Leikur Ungverjalands og Íslands verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 fimmtudaginn 12. nóvember klukkan 19.45 en upphitun hefst klukkan 18.45. Áskrift er hægt að kaupa hér en einnig verður í boði að kaupa stakan viðburð á myndlyklum Vodafone og Símans á kr. 990, sem og í vefsjónvarpi Stöðvar 2.