Mohamed Salah, leikmaður Liverpool, greindist með kórónuveiruna í gær líkt og Vísir greindi meðal annars frá. Fékk hann veirunaí brúðkaupi bróður síns í Egyptalandi.
Salah er líkt og flestar stjörnur ensku úrvalsdeildarinnar í landsliðsverkefnum þessa dagana. Hann hefur fengið leyfi frá knattspyrnusambandinu í Egyptalandi til að fara í brúðkaup bróður síns. Þar virðist hann hafa nælt sér í kórónuveiruna en hann er einu leikmaður Egyptalands sem greindist með veiruna í gær.
Hann er þó einkennalaus. Á vef enska götublaðsins The Sun má sjá fjölda mynda úr brúðkaupinu.
Salah er nú í einangrun í Egyptalandi og þarf líklega að vera þar þangað til hann greinist ekki lengur með veiruna. Mun hann missa af næsta leik Egyptalands gegn Tógó á laugardag sem og síðari leik landanna á þriðjudag.
Salah er meðal markahæstu manna í ensku úrvalsdeildinni með átta mörk til þessa. Liverpool er nú þegar í miklum meiðslavandræðum og má ekki við því að missa fleiri lykilmenn.