Góði hirðirinn annar vart eftirspurn og mun opna nýja 300 fermetra verslun við Hverfisgötu á fimmtudag og fram yfir jól. Vínilplötur seljast sem aldrei fyrr og unga fólkið er farið að sækja meira í nytjavörur. Meðalverð í Góða hirðinum er 276 krónur.
„Maður sér að það er gríðarlega mikil endurnýjun hjá fólki. Undanfarin ár hefur kaupmáttur aukist hjá fólki og svo er það ekki að ferðast á covid-tímum, þannig að framkvæmdagleðin virðist hafa tekið völdin. Við erum að fá mikið af vörum inn til okkar í góðu ástandi,” segir Ruth Einarsdóttir, rekstrarstjóri Góða hirðisins.

Hún segir aðí Góða hirðinum við Fellsmúla sé röð út á götu nánast allan daginn og því hafi verið tekin ákvörðun um að opna svokallaða pop-up verslun, sem verður opin fram yfir jól og hugsanlega lengur. Allur hagnaður rennur óskertur til góðgerðarsamtaka, eftir að leiga og laun hafa verið greidd.
„Þetta hefur hlaupið á nokkur hundruð milljónum frá stofnun Góða hirðisins. Þetta voru tæplega tuttugu milljónir í fyrra og stundum allt að fjörutíu milljóna framlög frá okkur einstök ár,” segir Gunnar Dofri Ólafsson, sérfræðingur í samskiptum hjá Sorpu.

Þau segja fólk einnig sækja í Góða hirðinn nostalgíunnar vegna, en sala á vínylplötum hefur verið óvenju mikil að undanförnu.
„Platan kostar 200 krónur og það eru eiginlega allir að koma sér upp núna plötuspilara á heimilinu. Það er nostalgía í þessu,” segir Ruth.
Verslunin verður opnuð klukkan 11 á fimmtudag en frekari upplýsingar má nálgast á Facebook-síðu Góða hirðisins.
