Strákarnir í Domino´s Körfuboltakvöldi eru komnir í jólaskap og gjafastuð eins og sást í þættinum þeirra um helgina.
Kjartan Atli Kjartansson mætti með sérfræðingum sínum Hermanni Haukssyni og Teiti Örlygsson í Sjáland í Garðabæ þar sem verið er að safna jólagjöfum undir risastóru jólatré. Jólagjafirnar eru ætlaðar til að gleðja krakka hér á landi.
„Hér er svona áskorunarleikur í gangi því það er skorað á fólk. Það var skorað á okkur að koma með gjafir fyrir börn sem Grensáskirkja hjálpar Sjálandi við að útdeila,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson í innslagi sínu.
„Þegar við erum búnir að setja pakkana okkar undir tréð þá eigum við að skora á einhverja aðra. Við ætlum að skora á kollega okkar,“ sagði Kjartan Atli.
„Við skorum á strákana í Seinni bylgjunni og þeir eiga að pakka þessu inn sjálfir,“ sagði Hermann Hauksson.
„Við skorum á þá að koma með gjafir og leggja þær undir tréð,“ sagði Kjartan Atli.
„Henry Birgir getur kannski líka komið með músastiga á tréð,“ sagði Teitur Örlygsson.
Seinni bylgjan er næst á dagskrá í kvöld klukkan 20.00 á Stöð 2 Sport.
Domino´s Körfuboltakvöld skorar á sem flest að taka þátt í þessari söfnun á pökkum undir jólatréð í Sjálandi í Garðabæ og það mega allir vera með.
Hér fyrir neðan má sjá myndband af því þegar strákarnir pökkuðu inn gjöfunum sínum og settu þá undir tréð.