Lög um sérstakan endurupptökudómstól tóku gildi í dag, 1. desember. Málsaðilar munu þannig geta borið mál sín undir Endurupptökudóminn, telji þeir ástæðu til. Það kemur síðan til kasta Endurupptökudóms að meta hvort málin uppfylli skilyrði um endurupptöku.
Ólöf Finnsdóttir, framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að umgjörð dómsins sé tilbúin. Nú eigi aðeins eftir að skipa í dóminn. Hún kveðst binda vonir við að hann geti tekið til starfa fljótlega á nýju ári þegar hann hefur verið fullskipaður.

Niðurstöður alþjóðlegra dómstóla geta talist ný gögn
Kristín Benediktsdóttir, dósent við lagadeild háskóla Íslands, segir að engin skylda hvíli á íslenska ríkinu til að endurupptaka málin. Hún segir margt benda til þess að ný lög um Endurupptökudóm muni liðka fyrir þeim skilyrðum sem uppfylla verður til að aðilar málanna fái í gegn endurupptöku mála sinna.
„Það er aðeins búið að breyta skilyrðunum frá því sem var áður þegar endurupptökunefnd var með þetta og svo Hæstiréttur og dómstólarnir áður. Nú er gefið í skyn að niðurstöður alþjóðlegra dómstóla geti talist ný gögn eða nýjar upplýsingar. Og það er náttúrulega skilyrði að það séu ný gögn eða upplýsingar sem bendi til þess að málsatvikin hafi verið önnur. Lykilatriðið er að það geti haft þær afleiðingar að þær breyti niðurstöðunni“.
Áttu von á holskeflu mála sem munu koma til kasta Endurupptökudóms eða er erfitt að spá fyrir um framhaldið?
„Það er óskaplega erfitt að meta þetta. Þetta eru alls ekki mörg mál í sjálfu sér, alls ekki. Væntanlega eru sumir sáttir við sína niðurstöðu. Það er ómögulegt að segja. […] Ég efast um að þetta verði einhver holskefla, ég get ekki ímyndað mér það.“