Handbolti

Aron markahæstur í sigri Börsunga

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aron var frábær í Danmörku í kvöld. 
Aron var frábær í Danmörku í kvöld.  Frank Molter/Getty

FH-ingurinn Aron Pálmarsson var funheitur í áttunda sigri Barcelona í jafn mörgum leikjum í Meistaradeildinni.

Aron Pálmarsson var markahæsti leikmaður Barcelona er liðið vann þriggja marka sigur, 35-32, á Álaborg í Meistaradeildinni í handbolta í kvöld.

Börsungarnir voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og voru 19-15 yfir eftir hann. Flestir héldu þá að þetta yrði göngutúr í garðinum fyrir Börsunga en það varð ekki raunin.

Heimamenn í Álaborg unnu sig hægt og rólega inn í leikinn og þegar fimm mínútur voru eftir jöfnuðu þeir metin í 31-31. Börsungarnir reyndust þó sterkari að lokum og höfðu betur, 35-32.

Hafnfirðingurinn skoraði sex mörk úr sjö skotum og var markahæsti leikmaður Barcelona.

Börsungar eru með fullt hús stiga í B-riðlinum en Álaborg er með tíu stig eftir níu umferðir.

Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Álaborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×