Vísir hefur áður fjallað um ísjakann sem brotnaði úr Larsen C-ísbreiðunni á Suðurskautslandinu árið 2017.
Gervihnettir hafa fylgst með reki ísjakans sem hlaut raðheitið A-68 og áætlað var að hann væri um 5.800 ferkílómetrar að flatarmáli. Til samanburðar mældist Vatnajökull um 7.700 ferkílómetrar að flatarmáli árið 2017.
Liðsmenn breska flughersins flugu yfir jakann á dögunum sem sýnir ótrúlegt umfang hans. Er ísjakinn það stór að ómögulegt reyndist að ná honum öllum á eina mynd. Gervihnattamynd sem sjá má hér í fréttinni sýnir þó ágætlega umfang hans, í samanburði við eyjuna.

Stærstur hluti jakans rekur nú hratt norðaustur í átt að Suður-Georgíu. Er það nú aðeins um 350 kílómetra frá eyjunni.
Talið er að jakinn gæti strandað á grunnsævi og valdið verulegum usla fyrir dýr á eyjunni og á hafsbotni

Strandi ísjakinn við Suður-Georgíu gæti hann verið þar næstu tíu árin. Ísjaki sem rak að ströndum eyjarinnar árið 2004 olli dauða ungviðis bæði mörgæsa og sela.
Enn er þó ekki útilokað að hafstraumar beri ísjakann fram hjá Suður-Georgíu til norðvesturs og hann brotni smám saman upp í minni borgarísjaka.
