Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar, og nýsköpunarráðherra hefur undirritað samkomulag þessa efnis við Hafrannsóknastofnun.
Í svari atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu segir að starfsmönnum Efnagreiningar, sem eru tíu, hafi verið boðin vinna hjá Hafró. Sé gert ráð fyrir að allir muni þeir færa sig yfir.
Verkefnum NMÍ fundinn staður annars staðar
Ráðherra nýsköpunarmála tilkynnti í lok febrúar að Nýsköpunarmiðstöð Íslands yrði lögð niður um komandi áramót. Stofnunin hefur sinnt fjölbreyttum samstarfsverkefnum með stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum og sagði ráðherra að verkefnunum verði fundinn staður innan háskólanna, annarra stofnana og hjá einkaaðilum.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu að ráðist sé í flutning verkefna Efnagreiningar að undangengnu mati á samlegðaráhrifum þess að Hafrannsóknastofnun taki við starfseminni.
„Með þessu viljum við ná fram aukinni samþættingu og samvinnu hvað varðar söfnun sýna, nýtingu tækja og aðstöðu, innleiðingu gæðastjórnunarferla, auk rekstrarlegs ávinnings. Þetta er góð niðurstaða sem mun styrkja rannsóknir og prófanir á sviði efnamælinga umtalsvert, ekki síst mælinga á sviði umhverfisvöktunar,“ segir Þórdís Kolbrún.
Með sameiningunni mun Hafrannsóknastofnun taka við framkvæmd þeirra þjónustumælinga sem Efnagreiningar bjóða upp á í dag, taka við tækjabúnaði Efnagreininga og vinna að því að þær mælingar og prófanir sem færast til stofnunarinnar verði aðlagaðar að alþjóðlegum gæðastöðlum og ferlum, að því er fram kemur í tilkynningunni.