Körfubolti

Gríska fríkið gerir stærsta samning í sögu NBA

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Giannis Antetokounmpo verður áfram í Milwaukee.
Giannis Antetokounmpo verður áfram í Milwaukee. getty/Kevin C. Cox

Giannis Antetokounmpo hefur skrifað undir nýjan fimm ára samning við Milwaukee Bucks. Samningurinn er sá stærsti í sögu NBA-deildarinnar í körfubolta.

Antetokounmpo, eða Gríska fríkið eins og hann er oft kallaður, átti eitt ár eftir af samningi sínum við Milwaukee og miklar vangaveltur voru um hvort hann yrði áfram hjá félaginu eða myndi róa á önnur mið.

Nú er ljóst að Antetokounmpo verður áfram í Milwaukee en hann hefur skrifað undir sannkallaðan risasamning við félagið. 

Samningurinn færir Antetokounmpo 228,2 milljónir Bandaríkjadala á næstu fimm árum en þetta er stærsti samningur í sögu NBA. Samningur James Harden við Houston Rockets frá 2017 var áður stærsti samningur í sögu deildarinnar, að andvirði 228 milljónum Bandaríkjadala.

„Þetta er mitt heimili, mín borg,“ skrifaði Antetokounmpo á Twitter í gær. „Ég er lánsamur að vera hluti af Milwaukee Bucks næstu fimm árin. Látum þessi ár telja. Sýningin heldur áfram.“

Antetokounmpo hefur verið valinn besti leikmaður NBA-deildarinnar (MVP) undanfarin tvö tímabil. Á síðasta tímabili var hann einnig valinn besti varnarmaður deildarinnar.

Milwaukee valdi Antetokounmpo með fimmtánda valrétti í nýliðavalinu 2013 en fyrir það lék hann í næstefstu deild í Grikklandi. Hann hefur tekið ótrúlegum framförum á síðustu árum en á fyrsta tímabili sínu í NBA skoraði hann aðeins tæp sjö stig að meðaltali í leik.

Á síðasta tímabili var Antetokounmpo með 29,5 stig, 13,6 fráköst og 5,6 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann var með 31,9 framlagsstig að meðaltali í leik sem er það þriðja hæsta í sögu NBA.

Milwaukee var með besta árangurinn í deildakeppninni á síðasta tímabili en féll úr leik í undanúrslitum Austurdeildarinnar fyrir Miami Heat, 4-1.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×