Forsætisráðherra Danmerkur tilkynnti nú síðdegis að samkomubannið þar í landi verði framlengt um tvær vikur fram yfir páska, til 13. apríl. Til skoðunar er að koma á svæðisbundnu ferðabanni yfir páskana.
Samkomur tíu manns eða fleiri hafa verið bannaðar í Danmörku frá því á þriðjudag í síðustu viku og hefur skólum og veitingastöðum verið lokað vegna þess. Flestir opinberir starfsmenn vinna heima hjá sér. Mette Fredriksen, forsætisráðherra, sagði á blaðamannafundi í dag að framlenging bannsins myndi fela í sér að skólar, barir, líkamsræktarstöðvar, hárgreiðslustofur og fleira verið lokað í tvær vikur til viðbótar.
Frederiksen lofaði árangur af aðgerðunum til þessa. Það sé vegna þeirra sem mikilvægt sé að halda áfram, að því er segir í frétt danska ríkisútvarpsins.
„Það er mikilvægt að við sem land höldum áfram. Ég veit að þetta er virkilega erfitt fyrir marga en við trúum því að þetta virki,“ sagði forsætisráðherrann.
Viðurkenndi hún að erfitt yrði að virða samkomubannið yfir páskana en hvatti fólk engu að síður til að hugsa sig um áður en það skipulegði mannfagnaði eða ferðalög. Ekki aðeins ættu Danir að forðast að fara til útlanda yfir páskana heldur einnig að ferðast innanlands.
„Ég geri mér grein fyrir að fólk vill gjarnan fara í sumarbústað en við þurfum að draga úr ferðalögum. Ríkisstjórnin er að sjálfsögðu að skoða hvort grípa þurfi til frekari aðgerða í þessum efnum,“ sagði Frederiksen sem lokaði landamærum Danmerkur um þarsíðustu helgi.
Alls hafa rúmlega 1.300 smit verið greind í Danmörku, sem dregið hafa þrettán manns til dauða.