Skoðun

Sjúkraliðar standa vaktina - en hvað svo?

Sandra Bryndísardóttir Franks skrifar

Sjúkraliðar um land allt hafa ekki farið varhluta af því álagi sem einkennir heilbrigðisþjónustuna. Alþekkt er að mönnun starfsgreina sem sinna hjúkrun og umönnun á Íslandi er ábótavant. Sjúkraliðar þekkja því miður afleiðingar af krefjandi starfsumhverfi, miklu vinnuálagi og skertri hvíld. Til fjölda ára hafa þeir tekist á við stöðugar aðhaldsaðgerðir ásamt miklu og vaxandi álagi.

Sjúkraliðafélag Íslands stóð nýlega að sameiginlegri yfirlýsingu með Læknafélagi Íslands og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga þar sem núverandi og fyrrverandi félagsmenn voru hvattir til að skrá sig í bakvarðasveitina vegna Covid-19 faraldursins. Viðbrögðin stóðu ekki á sér og um 230 sjúkraliðar skráðu sig sem bakverði. Mjög margir úr þeirra röðum eru nú að störfum til að létta álagi af kerfinu.

Yfirlýsingin var gerð í samvinnu við heilbrigðisráðherra, landlækni, ríkislögreglustjóra og sóttvarnarlækni, þar sem álag vegna COVID-19 var að óbreyttu talið óviðráðanlegt. Jákvæð viðbrögð við henni undirstrika í senn fórnfýsi starfsmanna í fagstéttum heilbrigðiskerfisins en um leið álagið á þeim sem sinna sérhæfðum verkefnum við líkn og umönnun sjúklinga.

Sjúkraliðar standa vaktina, klæddir grænu með grímur fyrir andliti og berjast gegn COVID-19. Þeir stofnar lífi sínu og heilbrigði í hættu með því að sinna vinnu sem teygir sig í langflestum tilvikum mun lengra en starfið segir til um. Þeir þurfa jafnvel að vera í sóttkví frá öðrum fjölskyldumeðlimum og lifa í hálfgerðri einangrun frá samfélaginu. En hvert er endurgjaldið sem sjúkraliðar fá fyrir íþyngjandi og erfiðar starfsaðstæður?

Í kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands við ríkissjóð er fjallað um heimild til að greiða sjúkraliðum sérstakar greiðslur t.d. vegna starfstengds álags. Við núverandi aðstæður telja sjúkraliðar sjálfsagt og eðlilegt að nýta þessa heimild. Sú leið hefur nú þegar verið farin í Noregi og Svíþjóð þar sem álagsgreiðslur fyrir starfsfólk sem vinnur við umönnun og hjúkrun hafa verið hækkaðar.

Stjórnvöld þurfa í samvinnu við heilbrigðisstofnanir að meta sérstaklega vinnuframlag sjúkraliða og verða við réttlátum óskum þeirra.

Höfundur er formaður Sjúkraliðafélags Íslands.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×