Körfubolti

Frákastið sem Rodman náði ekki voru flottustu tilþrif hans með Chicago Bulls

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dennis Rodman varð þrisvar sinnum NBA-meistari með Chicago Bulls á árunum 1996 til 1998.
Dennis Rodman varð þrisvar sinnum NBA-meistari með Chicago Bulls á árunum 1996 til 1998. Getty

Frákastavélin og fimmfaldi NBA-meistarinn Dennis Rodman var í stóru hlutverki í þremur titlum Chicago Bulls liðsins frá 1996 til 1998.

Í tilefni af „The Last Dance“ heimildarþáttunum þar sem Rodman kom mikið við sögu í þáttum þrjú og fjögur, þá ákvað Chicago Bulls að velja fimm flottustu tilþrif kappans í búningi Chicago Bulls liðsins.

„Það verður enginn annar Dennis Rodman,“ segir í inngangstextanum á myndbandinu og það er vissulega hægt að taka undir það.

Það sem vekur þó athygli að flottustu tilþrif Dennis Rodman með Chicago Bulls var frákast sem hann náði ekki.

Rodman henti sér þá á eftir vonlausum bolta og úr varð ein frægasta myndin af honum í búningi Chicago Bulls. Hér fyrir neðan má sjá þessi fimm flottustu tilþrif Ormsins sem er stundum kallaður Dennis the Menace.

Dennis Rodman lék með Chicago Bulls í þrjú tímabil og varð NBA-meistari og frákastakóngur deildarinnar á þeim öllum.

Rodman tók alls 3036 fráköst í 199 deildarleikjum með Chicago Bulls í deild eða 15,3 að meðaltali í leik. Hann náði yfir tuttugu fráköstum í 36 leikjum og yfir tíu fráköstum í 177 leikjum með Bulls-liðinu.

Það fylgir líka sögunni að Rodman tók aðeins samtals 950 skot á þessum þremur tímabilum og var því með meira en þrjú fráköst fyrir hvert skot.

Á lokatímabilinu sínu með Chicago Bulls varð Dennis Rodman elsti maðurinn til að leiða NBA-deildina í fráköstum eða 36 ára og 341 dags gamall.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×