Þar sem hlýindi ganga yfir landið í dag verður ekki unnið að fullum krafti innan þess svæðis þar sem stóra skriðan féll á 18. desember að því er fram kemur í tilkynningu frá almannavörnum.
„Hreinsunar- og viðgerðarstarf verður unnið utan þess svæðis og búið í haginn vegna vinnu komandi viku. Þá er veðurútlit gott og má búast við að vinna fari af stað af fullum krafti á morgun,“ segir í tilkynningunni.
Þrátt fyrir að upptakasvæði skriðanna sé ekki innan rýmingarsvæðis, þá er áréttað í tilkynningunni að þar geti verið hættulegt að fara um vegna lausra jarðlaga, skriðubrúna og sprungna sem þar hafa myndast.
„Fylgst verður með aðstæðum í dag, farið upp í Botnabrún og sprungur skoðaðar, og gerðar mælingar á hreyfingu jarðlaga. Engin hreyfing mældist í morgun en hún hefur verið lítil sem engin undanfarna viku,“ segir ennfremur í tilkynningunni en þjónustumiðstöð almannavarna er opin í Herðubreið á Seyðisfirði í dag.