Boston vann leikinn, 105-107. Nýliðinn Payton Pritchard skoraði sigurkörfuna þegar 0,2 sekúndur voru eftir af leiknum. Hann tók þá sóknarfrákast eftir skot Marcus Smart og kom boltanum ofan í körfuna.
Leikmenn Boston íhuguðu að spila leikinn ekki í mótmælaskyni við skrílslætin í þinghúsinu í Washington. Þeir mættu þó til leiks og unnu liðið sem sló þá út í úrslitum Austurdeildarinnar á síðasta tímabili.
„Ég held að við vonumst öll eftir því að fólkið sem við kjósum í valdastöður sýni leiðtogahæfni sína með því að þjónusta aðra, sýna samúð og koma fram af virðingu. Í staðinn kusum við forseta, sem er sem betur fer á leiðinni út, sem sýnir engan þokka. Það hefur verið stöðugt. Þeir eru tilbúnir að fórna öllu fyrir sigurinn. Auðvitað skiptir íþróttaheimurinn minna máli en ég hef alltaf litið svo á að ef þú ert tilbúinn að fórna öllum gildum fyrir sigur þá verður endirinn alltaf ófullnægjandi. Ég hlakka til dagsins eftir tvær vikur,“ sagði Brad Stevens, þjálfari Boston, eftir leikinn í nótt.
„Íþróttir eru oft notaðar til að lyfta fólki upp og breiða út gleðina,“ sagði Jaylen Brown sem skoraði 21 stig fyrir Boston gegn Miami. Jayson Tatum var stigahæstur Boston-manna með 27 stig. Hetjan Pritchard skoraði sex stig, tók sex fráköst og gaf fjórar stoðsendingar á tuttugu mínútum.
Þetta var þriðji sigur Boston í röð en liðið er í 4. sæti Austurdeildarinnar með sex sigra og þrjú töp. Miami er í 11. sæti með þrjá sigra og fjögur töp.
Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá allt það helsta úr leik Miami og Boston. Þar má einnig sjá brot úr sigri Philadelphia 76ers á Washington Wizards og úr sigri Phoenix Suns á Toronto Raptors sem og tíu flottustu tilþrif leikja næturinnar.

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.