Samdrátturinn er rakinn til heimsfaraldurs kórónuveirunnar sem hefur, líkt og alls staðar, haft gríðarleg áhrif á bandarískt samfélag. Hægt hefur á öllu efnahagslífi, framleiðslu, ferðalögum, auk þess að stór hluti fólks á vinnumarkaði þurft að vinna að heiman.
New York Times segir að samdrátturinn í losun hafi verið mestur í samgöngum, þar sem hann nam um 15 prósentum, en geirinn er enn mjög háður notkun á jarðefnaeldneyti. Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa þannig mörg á árinu ráðlagt fólki gegn ferðum sem ekki teljast nauðsynlegar og þá hefur flugumferð dregist mikið saman. Þá dróst losun í orkugeiranum einnig mikið saman, sér í lagi vegna samdráttar í notkun kola sem orkugjafa.
Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur náð mikilli útbreiðslu í Bandaríkjunum þar sem rúmlega 23 milljónir manna hafa nú smitast, auk þess að um 350 þúsund dauðsföll hafi verið rakin til Covid-19.
Sérfræðingar hafa varað við að samdrátturinn í Bandaríkjunum nú skýrist af óvenjulegum aðstæðum, það er heimsfaraldrinum, og að landið eigi langt í land til að ná tökum á gríðarmikilli losun sinni sem stuðlar að loftslagsbreytingum.