Harden hefur verið aðalmaðurinn í Houston um árabil og stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar síðustu þrjú tímabil. Nú er komið að öðrum að láta ljós sitt skína hjá liðinu og Houston vann 109-105 sigur gegn San Antonio Spurs.
Christian Wood var atkvæðamestur hjá Houston með 27 stig og 15 fráköst. Sterling Brown, sem kom inn í byrjunarliðið í stað Hardens, skoraði 23 stig, tók sjö fráköst og gaf þrjár stoðsendingar, og Jae‘Sean Tate var einnig öflugur með 13 stig, 10 stoðsendingar og fimm fráköst.
27 PTS, 15 REB from @Chriswood_5 helps the @HoustonRockets prevail against SAS! #Rockets pic.twitter.com/9IZjNXhE59
— NBA (@NBA) January 15, 2021
Harden hálfpartinn kvaddi Houston í viðtali eftir tvo tapleiki í röð gegn LA Lakers á þriðjudaginn, með þeim orðum að liðið væri einfaldlega ekki nógu gott og ekki væri hægt að laga það. Samherjar hans nýttu fyrsta tækifæri til að sýna að eitthvað væri þó í liðið spunnið, en Houston er samt næstneðst í vesturdeildinni með 4 sigra og 6 töp.
Jokic með þrennu og Denver upp að hlið Golden State
Nikola Jokic skoraði 18 af 23 stigum sínum í seinni hálfleik þegar Denver Nuggets unnu tíu stiga sigur á Golden State Warriors, 114-104. Liðin eru þar með jöfn að stigum ásamt San Antonio um miðja vesturdeildina með 50% sigurhlutfall eftir 12 leiki.
Jokic skoraði ekki bara 23 stig heldur tók 14 fráköst og gaf 10 stoðsendingar, og náði þar með sinni 46. þrennu á ferlinum. Stephen Curry setti niður 14 af 23 skotum sínum og skoraði 35 stig. Hann er nú 15 þriggja stiga körfum frá því að jafna við Reggie Miller í 2. sæti yfir flesta þrista í sögu deildarinnar. Miller setti niður 2.560 þrista á sínum ferli. Ray Allen er efstur með 2.973 þrista.
Úrslit næturinnar:
- Philadelphia 125 – 108 Miami
- Toronto 111 – 108 Charlotte
- San Antonio 105 – 109 Houston
- Denver 114 – 104 Golden State
- Portland 87 – 111 Indiana