Erlent

2020 nálægt því að vera heitasta ár frá upphafi mælinga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Slökkviliðsmaður sést hér berjast við skógarelda í San Mateo í Kaliforníu í ágúst í fyrra.
Slökkviliðsmaður sést hér berjast við skógarelda í San Mateo í Kaliforníu í ágúst í fyrra. Getty/Liu Guanguan

Síðasta ár keppir við árið 2016 um að vera heitasta árið frá upphafi mælinga samkvæmt útreikningum vísindamanna hjá nokkrum erlendum stofnunum. Samkvæmt útreikningum einnar stofnunar, bandarísku geimferðarstofnunarinnar NASA, er árið reyndar það heitasta en með naumindum þó.

Útreikningar bresku veðurstofunnar og bandarísku sjávar- og loftslagsstofnunarinnar (NOAA) sýna að 2020 var eilítið kaldara en 2016 en útreikningar loftslagsrannsókna Evrópusambandsins sýna að árin voru jafnheit.

„Síðustu sjö ár hafa verið heitustu árin frá upphafi mælinga,“ segir Abira Sánchez-Lugo, sérfræðingur hjá NOAA, í samtali við Washington Post.

Þótt mælingar mismunandi stofnana gefi ekki alveg sömu niðurstöður varðandi það hvað ár er það heitasta þá undirstrika öll gögn langtíma hlýnun jarðar af mannavöldum.

Að því er fram kemur í frétt Guardian hafa nú verið 44 ár í röð þar sem hitastig á jörðinni hefur verið hærra en meðaltalið á 20. öld.

Gavin Schmidt, stjórnandi hjá NASA, segir þetta ekki „nýja normið“ heldur eigi hitastigið eftir að hækka meira.

Miklar náttúruhamfarir urðu víða um heim á liðnu ári, meðal annars skógareldar í Síberíu, Ástralíu, Suður-Ameríku og Kaliforníu, sem raktir eru til hlýnunar jarðar.

„Þetta var svo sannarlega ár eldanna. Frá hrikalegum eldum í Ástralíu til elda í stærstu mýrum Suður-Ameríku til strandar Kaliforníu, þá urðu þessir eldar í fyrra vegna mikilla þurrka og hlýnunar í nokkrum heimsálfum,“ segir Merritt Turetsky, vísindamaður við háskólann í Colorado.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×