Skoðun

Hug­rekki og fram­tíðar­sýn

Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir skrifar

Í sameiginlegri áskorun Landverndar, Norges Naturvernforbund, Danmarks Naturfredningsforening, Sveriges Naturskyddsföreningen, Ålands natur og miljø og Natur och miljö, Finland eru stjórnvöld á Norðurlöndum hvött til þess að ákveða formlega þann dag sem notkun á jarðefnaeldsneyti verður hætt.

Landvernd skorar á ríkisstjórn Íslands að í árslok 2035 verði alfarið hætt að nota jarðefnaeldsneyti á Íslandi.

Hugrekki þarf til þess að ákveða slíka dagsetningu, en án tímaramma og skýrra markmiða er nær öruggt að menn freistist til að halda áfram að brenna jarðefnaeldsneyti með tilheyrandi losun, lengur en jörðin þolir.

Við vitum að við erum komin að vendipunkti í loftslagsmálum og að við þurfum að snúa við blaðinu á allra næstu árum.

Það er auðvelt að finna til vanmáttar í loftslagsbaráttunni, sérstaklega þegar aðgerðir hins opinbera til þess að draga úr losun eru ekki í takti við fréttir og rannsóknir sem berast almenningi um þá grafalvarlegu stöðu sem við erum í. Tími hugrakkra, metnaðarfullra og róttækra aðgerða er runninn upp.

Landvernd fagnar nýlega uppfærðum markmiðum stjórnvalda um samdrátt í losun. Metnaðarfull markmið varðandi samdrátt eru nauðsynleg – en aðgerðirnar þurfa að vera jafn metnaðarfullar og framtíðarsýnin skýr.

Í Orkustefnu sem gerð var nýlega er talið að Ísland geti verið laust við bensín og dísil árið 2050. Að mati Landverndar er 2050 ekki nægilega metnaðarfullt markmið og án nokkurs vafa hægt að gera betur. Ef þetta gengi eftir fengi Ísland ekki sama samkeppnisforskot í loftslagslausnum og yrði heldur ekki fyrirmynd annarra ríkja með það að markmiði að verða laust við jarðefnaeldsneyti.

Þegar kemur að orkuframleiðslu er Ísland með algera sérstöðu því framleiðsla rafmagns með endurnýjanlegri orku á hvern íbúa er sú mesta í heimi! Þessa sérstöðu eigum við að nýta og sýna heiminum að hægt er að lifa góðu lífi án jarðefnaeldsneytis.

Fyrir okkur Íslendinga fylgir því aðeins ávinningur að losa landið við jarðefnaeldsneyti. Við losnum við mengun af völdum slíks bruna, betra orkuöryggi þar sem við verðum ekki háð innfluttri orku og spörum gjaldeyrir.

Höfundur er varaformaður Landverndar.




Skoðun

Sjá meira


×