„Nú á hún ekki að sleppa,“ segir Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar.

„Ég hugsa að þetta fari að nálgast Íslandsmet,“ svarar hann spurður hvort áður hafi verið lagt í svo viðamikinn leiðangur.
Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson fór af stað úr Hafnarfirði í morgun og skömmu síðar sigldi fiskiskipið Hákon ÞH úr Reykjavík. Bjarni stefnir á Vestfirði til að kanna Grænlandssund en þar hefur hafísjaðarinn, sem áður hindraði leit, eitthvað hopað. Hákon mun hins vegar leita grunnt undan Norðurlandi.
Rannnsóknaskipið Árni Friðriksson, sem lagði upp frá Hafnarfirði síðastliðinn sunnudag, leitaði fyrst á Austfjarðamiðum en stefnir núna einnig á Vestfjarðamið. Hann var í dag á siglingu vestur með Norðurlandi.

Auk Árna hófu fjögur fiskiskip að leita undan Austfjörðum í byrjun vikunnar; Ásgrímur Halldórsson SF, Aðalsteinn Jónsson SU, Börkur NK og Bjarni Ólafsson AK. Núna hefur Jóna Eðvalds SF einnig bæst við. Fjögur fyrrnefndu skipin stefna norður á bóginn á Norðausturmið en Jóna Eðvalds stefnir á hafsvæðin undan sunnanverðum Austfjörðum.
Hér má sjá leitarferla skipanna.
Sjávarútvegsráðherra gaf í gær út 61 þúsund tonna loðnukvóta. Ætla má að íslensk skip fái rétt um helming þess kvóta sem dugar hverju skipi vart í nema eina til tvær veiðiferðir.
Bjartsýni ríkir hins vegar innan sjávarútvegsins um að leitin skili mun meiri kvóta, að sögn Ásgeirs Gunnarssonar, framkvæmdastjóra veiða og vinnslu hjá Skinney-Þinganesi á Hornafirði. Hann telur að aldrei fyrr hafi jafnmörg skip verið í skipulagðri loðnuleit og veðurspá sé einnig þokkaleg.

„Ég spái 220 þúsund tonna vertíð,“ segir Ásgeir.
Hann telur þó að veiði hefjist vart fyrr en undir miðjan febrúar þegar komin sé góð hrognafylling og loðnan orðin verðmætari.
En hvenær má svo búast við niðurstöðum úr loðnuleitinni?
„Upp úr næstu helgi, þá verða fregnir,“ svarar forstjóri Hafrannsóknastofnunar.