Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, hefur viðrað þá hugmynd að leggja gjald á notkun nagladekkja í umræðu um baráttu við svifryksmengun í Reykjavík. Samgönguráðherra bendir á að nagladekk séu mikilvægt öryggistæki.
„Mér finnst í þessu heildarsamhengi nauðsynlegt að átta sig á því að við búum á Íslandi og það eru víðar vegir heldur en hér í Reykjavík. Það hefur sýnt sig að nagladekk bæta verulega öryggi þegar þú ert að keyra á þjóðvegum landsins. Svifrykið í Reykjavík er sjálfstætt vandamál og við þurfum að gæta allra leiða til þess. Í nýjum umferðarlögum eru leiðir til þess og við höfum verið að útfæra reglugerðir þar af lútandi. Ég sé ekki hvernig það á að vera ef menn koma keyrandi til Reykjavíkur og greiða sektargjald fyrir að sinna sínum erindum í höfuðborginni. Það er sjálfsagt að taka umræðu um hvernig sé hægt að minnka svifryk í borginni án þess að skerða umferðaröryggi.“
Hann nefnir gatnahreinsun sem leið til að minnka svifryk.
„Svo hefur komið í ljós að skemmtiferðaskipin hafa verið að blása hér yfir umtalsverðu svifryki smáu sem ég held að væri mjög gott að koma í veg fyrir. Og svo auðvitað með fræðslu og kynningu, að þeir sem ekki þurfa á nagladekkjum að halda, þeir ættu auðvitað ekki að þurfa að nota þau.