Henrik Dam Kristiensen þingforseti mun nú vísa málinu til Thomas Rørdam forseta Hæstaréttar.
Rannsóknarnefnd þingsins tilkynnti í síðasta mánuði að Støjberg hafi í ráðherratíð sinni, árið 2016, gefið út ólögleg tilmæli um að láta aðskilja gifta hælisleitendur sem væru yngri en átján ára við komuna til Danmerkur. Støjberg vildi ekki tjá sig um málið þegar danska ríkisútvarpið, DR, óskaði eftir því eftir að niðurstaðan lá fyrir.
Þetta verður sjötta málið í sögu Danmerkur sem fer fyrir Ríkisrétt en aðeins annað málið sem fer fyrir réttinn á síðustu hundrað árum.
Ríkisréttur Danmerkur líkist að miklu leyti Landsdómi á Íslandi. Ríkisréttur Danmerkur er skipaður þrjátíu mönnum – fimmtán dómurum Hæstaréttar og fimmtán einstaklingum sem kosnir eru af þjóðþinginu. Inger Støjberg lét nýverið af varaformennsku í Venstre eftir deilur innan flokksins.