„Við erum svona að reyna að ná utan um þennan atburð og sjá hvort það hafi orðið tjón eða slys sem þurfi að bregðast eitthvað sérstaklega við en það hefur ekki orðið. Við höfum ekki fengið neinar tilkynningar um slys og við erum bara að reyna að miðla upplýsingum um allt sem er að gerast og skilaboðin okkar núna eru að gæta að sér. Það geta komið áfram skjálftar og geta jafnvel orðið stærri skjálftar. Þannig að það þarf að huga vel að lausamunum í þessu og allir, bæði vinnustaðir og heimili, fari vel yfir sín mál þannig að fólk sé ekki með lausamuni sem geta fallið niður og valdið slysi,“ segir Víðir.
Ekki liggur fyrir hve mikið tjón hefur orðið.
„Við erum ekki komin með það góða yfirsýn yfir það enn þá en við erum búin að fá talsvert af tilkynningum um lausamuni sem hafa fallið niður. Það hafa hlutir fallið úr hillum og annað slítk en engin stórtjón og engin slys.“
Lögreglan á Reykjanesi er á ferðinni að meta aðstæður. Þá er notast við þyrlu Landhelgisgæslunnar sem var á leið í æfingaflug.
„Lögreglan á Suðurnesjum er að kíkja á staði sem eru þekktir, bæði þar sem hafa fallið skriður og líka eins og í Krýsuvíkurskóla og annað sem er nálægt upptökunum. Svo er þyrla Landhelgisgæslunnar var að fara í æfingaflug og hún er að fljúga yfir Reykjanesið núna að kíkja yfir gönguleiðir og annað í svona góðu veðri er oft margt fólk á ferðinni á þessu svæði þannig að við erum að kíkja eftir því.“