Körfubolti

NBA dagsins: Magnaðir endasprettir hjá liðum Bucks og Hornets

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Malik Monk fagnar sigurkörfunni sinni í nótt ásamt liðsfélaga sínum LaMelo Ball hjá Charlotte Hornets.
Malik Monk fagnar sigurkörfunni sinni í nótt ásamt liðsfélaga sínum LaMelo Ball hjá Charlotte Hornets. Getty/Ezra Shaw

Milwaukee Bucks og Charlotte Hornets buðu bæði upp á geggjaðan endasprett í NBA-deildinni í körfubolta í nótt og sýndu að margt getur breyst á lokamínútum leikjanna.

Los Angeles Clippers var 100-96 yfir þegar þrjár mínútur voru eftir að leiknum á móti Milwaukee Bucks en Giannis Antetokounmpo sýndi mátt sinn á lokamínútunum.

Antetokounmpo skoraði næstu sjö stig og Bucks liðið tryggði sér sigur með því að vinna lokamínúturnar 9-0.

Giannis var með 36 stig, 14 fráköst og 5 stoðsendingar en þetta var fimmti sigur liðsins í röð. Þessi sigurhrina kom í kjölfarið á fimm leikja taphrinu en nú er allt annað að sjá til liðsins.

Það var jafnvel enn meiri dramatík þegar Charlotte Hornets liðið snéri við leik sínum á móti Sacramento Kings. Hornets vann leikinn með einu stigi, 127-126, en Sacramento liðið var 123-115 yfir í leiknum þegar aðeins 69 sekúndur voru eftir.

Leikmenn Kings klikkuðu á fimm vítum á lokakafla leiksins og Hornets svaraði því með 12-3 spretti. þetta var tíunda tap Sacramento Kings í síðustu ellefu leikjum.

PJ Washington skoraði 42 stig fyrir Charlotte Hornets en sigurstigin skoruðu Malik Monk 1,4 sekúndum fyrir leikslok þegar hann skoraði körfu og fékk víti að auki. Monk endaði leikinn með 21 stig og LaMelo Ball var með 24 stig og 12 stoðsendingar.

Hér fyrir neðan má sjá myndband með svipmyndum frá þessum tveimur endurkomusigrum, sem og sigur Los Angeles Lakers á Golden State Warriors og sigur Phoenix Suns á Minnesota Timberwolves. Devin Booker skoraði 43 stig í leiknum fyrir Suns liðið sem vann í fjórtánda sinn í síðustu sautján leikum. Að lokum eru síðan flottustu tilþrif næturinnar.

Klippa: NBA dagsins (frá 28. febrúar 2021)
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×