Körfubolti

Harden með þrennu og það vantaði bara pínulítið upp á hjá þeim Doncic og Jokic

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 James Harden var frábær með liði Brooklyn Nets í nótt.
 James Harden var frábær með liði Brooklyn Nets í nótt. Getty/Ronald Cortes

Brooklyn Nets og Dallas Mavericks eru bæði að komast í gírinn í NBA-deildinni í körfubolta en topplið deildarinnar Utah Jazz fór ekki í góða ferð suður til Louisiana.

James Harden heldur áfram að safna þrennunum hjá Brooklyn Nets en kappinn bætti einni slíkri í safnið í nótt. Luka Doncic og Nikola Jokic vantaði báða aðeins eina stoðsendingu upp á að gera slíkt hið sama. Topplið Utah Jazz tapaði í New Orleans.

James Harden var með 30 stig, 14 fráköst og 15 stoðsendingar þegar Brooklyn Nets vann 124-113 sigur á San Antonio Spurs í framlengdum leik. Spurs tryggði sér framlenginguna með því að enda fjórða leikhlutann á 10-0 spretti. Harden tapaði ekki einum bolta í leiknum sem var sögulegt ofan á slíkt framlag.

Þetta var níundi sigur Brooklyn liðsins í síðustu tíu leikjum en Kyrie Irving skoraði 27 stig og Bruce Brown var með 23 stig. DeMar DeRozan skoraði 22 stig og gaf 11 stoðsendingar hjá Spurs og þeir Dejounte Murray og Lonnie Walker IV voru báðir með 19 stig.

Luka Doncic var ótrúlega nálægt þrennunni þegar Dallas Mavericks vann 130-124 sigur á Orlandi Magic en Slóveninn endaði leikinn með 33 stig, 19 fráköst og 9 stoðsendingar. Jalen Brunson skoraði 17 af 24 stigum sínum í seinni hálfleik en Dallas hefur nú unnið fjóra af síðustu fimm leikjum og níu af síðustu tólf. Nikola Vucevic var með 29 stig, 15 fráköst og 8 stoðsendingar hjá Orlando en liðið tapaði sínum fjórða leik í röð.

Nikola Jokic var jafnstutt frá þrennunni og Doncic en hann var með 39 stig, 14 fráköst og 9 stoðsendingar þegar Denver Nuggets vann 118-112 sigur á Chicago Bulls. Þetta hefði annars orðið fimmtugasta þrennan hans á NBA ferlinum. Jokic skoraði sautján stig í lokaleikhlutanum.

Jamal Murray skoraði 24 stig og Michael Porter Jr. bætti við 17 stigum og 15 fráköstum í þriðja sigri Denver í síðustu fjórum leikjum. Zach LaVine var með 23 stig og 9 fráköst fyrir Chicago og Coby White bætti við 20 stigum og 10 fráköstum.

Zion Williamson átti mjög flottan leik þegar New Orleans Pelicans vann topplið Utah Jazz 129-124. Williamson endaði með 26 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar, Brandon Ingram skoraði 26 stig og Lonzo Ball bætti við 23 stigum, 7 fráköstum og 8 stoðsendingum.

Bojan Bogdanovic skoraði sjö þrista og 31 stig fyrir Utah Jazz en þetta var aðeins áttunda tap liðsins á tímabilinu. Donovan Mitchell skoraði 8 af 21 stigi sínum á lokamínútunni þegar Utah gerði sig líklegt til að stela sigrinum. Rudy Gobert var með 22 stig, 9 fráköst og 5 varin skot.

Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:

  • New Orleans Pelicans - Utah Jazz 129-124
  • San Antonio Spurs - Brooklyn Nets 113-124
  • Orlando Magic - Dallas Mavericks 124-130
  • Chicago Bulls - Denver Nuggets 112-118
  • Philadelphia 76ers - Indiana Pacers 130-114
  • Houston Rockets - Cleveland Cavaliers 90-101
  • Portland Trail Blazers - Charlotte Hornets 123-111
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×