Hugmyndina segir Eva hafa verið að þróast í langan tíma og loka útkoman sé eitthvað sem ekki hefur sést áður í sjónvarpi.
„Við fengum samt klárlega innblástur af allskonar leyniverkefnum og leyniboxum eins og sést hefur í öðrum svipuðum þáttum.“
Hverju mega áhorfendur eiga von á?
„Skemmtun, fyrst og fremst. Ég fékk til mín frábæra gesti, sem eru mis vön í bakstrinum og útkoman er alveg eftir því,“ segir Eva og hlær og bætir því við að þetta sé svo sannarlega skemmtiþáttur fyrir alla fjölskylduna.
„Fólk getur líka alveg búist við því að sjá mikið keppnisskap hjá fólki, enda er auðvitað líka um grafalvarlega kökukeppni að ræða.“
Í þáttunum fær Eva til sín tvo gesti og eins og nafnið gefur til kynna þá munu þeir þurfa að fylgja leiðbeiningum Evu í blindni.

„Gestirnir fá hráefni og þurfa að baka með mér án þess að vita nákvæmlega hvaða hráefni þau eru með en einnig munu þau heldur ekki sjá mig. Þau þurfa þess vegna að hlusta einstaklega vel og fylgja hverju skrefi. Fyrirfram vita þau ekkert hvað þau eiga að baka sem gerir þetta ennþá skemmtilegra.“
Undirbúningurinn á þáttunum hefur staðið yfir í rúmt ár og segir Eva ferlið allt búið að vera mjög skemmtilegt.
„Það var ótrúlega gaman að sjá hugmyndina verða að veruleika og upptökudagarnir voru þvílíkt skemmtilegir. Ég er þess vegna handviss um að allir þeir sem hafa áhuga á bakstri og skemmtilegu fólki eigi eftir að hafa gaman af. Svo má ekki gleyma að þetta er fyrsta íslenska baksturskeppnin, sem er frekar gaman.“
Viltu nefna einhverja einstaklinga sem munu keppa í þáttunum?
„Við tökum á móti frábærum gestum. Meðal annars má nefna Júlíönu Söru, Hjálmar Örn, Katrínu Jakobs, Bjarna Ben, Guðrúnu Gunnars og fleiri góða,“ segir Eva Laufey að lokum.