Körfubolti

NBA dagsins: Curry afgreiddi toppliðið í afmælisskónum frá krökkunum

Sindri Sverrisson skrifar
Skórnir glæsilegu sem krakkarnir hans Stephen Curry hönnuðu.
Skórnir glæsilegu sem krakkarnir hans Stephen Curry hönnuðu. EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO

Stephen Curry hélt upp á 33 ára afmæli sitt með stæl þegar Golden State Warriors unnu Utah Jazz í nótt.

Curry fékk glæsilega afmælisskó að gjöf frá börnum sínum þremur sem þau höfðu hannað fyrir kappann. Í skónum skoraði Curry 32 stig og átti stóran þátt í 131-119 sigrinum á Utah sem er enn með besta sigurhlutfall NBA-deildarinnar en nú með 10 töp á leiktíðinni. Tilþrif hans og fleira til má sjá í NBA dagsins hér að neðan.

Klippa: NBA dagsins 15. mars

Curry gaf líka níu stoðsendingar og er núna aðeins einni stoðsendingu frá því að jafna félagsmet Guy Rodgers sem gaf 4.855 stoðsendingar á sínum ferli.

Philadelphia efst í austri og fagnaði fyrir framan stuðningsmenn

Utah er enn efst í vesturdeildinni með 28 sigra og 10 töp en í austurdeildinni eru Philadelphia 76ers efstir með 27 sigra og 12 töp. Þeir unnu stórsigur á San Antonio Spurs í gær, 134-99, í fyrsta leiknum eftir að þeirra besti maður, Joel Embiid, meiddist. Hann verður frá keppni í tvær vikur.

Philadelphia hélt með sigrinum upp á að geta loks spilað fyrir framan áhorfendur að nýju, eftir 368 daga bið, en 3.071 stuðningsmaður var á leiknum.

Zion Williamson skoraði 27 stig fyrir New Orleans Pelicans þegar liðið vann 135-115 sigur á LA Clippers og kom sér nær sæti í úrslitakeppninni. Pelicans eru í 11. sæti vesturdeildar með 17 sigra og 22 töp, fjórum töpum meira en næsta lið, en liðin í 7.-10. sæti í lok deildarkeppninnar fara í umspil um tvö laus sæti í úrslitakeppninni.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×