Hæstiréttur Minnesota komst að þessari niðurstöðu á dögunum en maðurinn hafði áður verið fundinn sekur í undirrétti og sá dómur staðfestur af áfrýjunardómstól.
Umrætt atvik átti sér stað fyrir fjórum árum en þá hafði þolandanum og vinkonu hennar verið meinaður aðgangur að skemmtistað í Minneapolis, þar sem þolandinn þótti of drukkinn.
Gerandinn, Francois Momolu Khalil, sem var fyrir utan ásamt tveimur öðrum mönnum, bauð konunum í partý.
Khalil ók konunum á staðinn en þar reyndist ekkert partý. Þolandinn sofnaði fljótlega á sófa í umræddri íbúð og vaknaði með Khalil ofan á sér. Hún sagði honum að hún vildi ekki stunda kynlíf með honum en hann maldaði í móinn og þegar hún vaknaði aftur var búið að afklæða hana.
Konan leitaði á sjúkrahús sama dag og til lögreglu fjórum dögum seinna.
Niðurstaða hæstaréttar mun leiða til þess að aftur verður réttað í málinu en ef Khalil verður fundinn sekur á ný fær hann nú líklega í mesta lagi nokkurra mánaða skilorðsbundinn dóm.
Minnesota er meðal þeirra 40 ríkja Bandaríkjanna þar sem þolendur eru aðeins taldir ófærir um að veita samþykki ef þeir eru undir áhrifum „gegn vilja sínum“, það er að segja ef þeim hefur verið gefið áfengi eða lyf án samþykkis.
Ef þolandinn varð ölvaður að sjálfsdáðun, er samkvæmt lögum í þessum ríkjum ekki hægt að færa þau rök að hann hafi verið ófær um að gefa samþykki sökum ölvunarástands.
Unnið hefur verið að lagabreytingu í Minnesota hvað þetta varðar og liggur frumvarp fyrir neðri deild þingsins sem nýtur stuðnings þvert á flokkslínur.