Innlent

Lög um skipta búsetu barna samþykkt á þingi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Loksins! Nú hefur frumvarpið um skipta búsetu barna verið samþykkt,“ segir Áslaug Arna í færslu á Facebook.
„Loksins! Nú hefur frumvarpið um skipta búsetu barna verið samþykkt,“ segir Áslaug Arna í færslu á Facebook. Vísir/Vilhelm

Barn getur nú verið skráð í þjóðskrá með búsetu hjá báðum foreldrum eftir að Alþingi samþykkti lagafrumvarp um skipta búsetu barns.

Nýju lögunum er ætlað að stuðla að sátt og jafnari stöðu foreldra sem fara með sameiginlega forsjá barns og kjósa að ala það upp saman á tveimur heimilum. Frumvarpið var samþykkt með 59 atkvæðum en fjórir voru fjarstaddir.

Gömlu barnalögin gerðu ráð fyrir því að foreldrar færu sameiginlega með forsjá barns síns eftir skilnað en ákveddu hjá hvoru þeirra barn skyldi eiga lögheimili og þar með að jafnaði fasta búsetu. Með breytingunum geta foreldrar því samið um að barnið skuli eiga fasta búsetu hjá þeim báðum.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að nú geti foreldrar sem kjósa að ala upp börn sín í góðri sátt á tveimur heimilum búið við sambærileg skilyrði af hálfu hins opinbera. Ekki sé ýtt undir ágreining með ójafnri stöðu heimilanna.

„Skipt búseta stuðlar að jafnari stöðu foreldra og gerir ráð fyrir að foreldrar geti unnið saman í öllum málum er varða barnið sé það barni fyrir bestu,“ segir Áslaug Arna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×