Á aðalfundinum skipaði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra í stjórn Landsvirkjunar samkvæmt lögum um fyrirtækið en ekki voru gerðar breytingar á skipan stjórnar frá fyrra starfsári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun.
Aðalmenn í stjórn Landsvirkjunar eru því áfram Jónas Þór Guðmundsson, Álfheiður Ingadóttir, Jón Björn Hákonarson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir og Gunnar Tryggvason.
Á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfundinn var Jónas Þór Guðmundsson endurkjörinn formaður stjórnar og Álfheiður Ingadóttir endurkjörin varaformaður.
Tekjur lækkuðu um sjö milljarða króna
Fram kemur í ársreikningi Landsvirkjunar að rekstrartekjur samstæðunnar lækkuðu um 56,1 milljón Bandaríkjadala á síðasta ári eða 7.141 milljón íslenskra króna. Námu tekjur 453,5 milljónum Bandaríkjadala samanborið við 509,6 milljónir árið 2019.
Rekstrargjöld námu 256,2 milljónum Bandaríkjadala á árinu 2020 en voru 265,9 milljónir Bandaríkjadala árið 2019. Rekstrarhagnaður fyrirtækisins var því 197,4 milljónir Bandaríkjadala á árinu 2020 samanborið við 243,7 milljónir árið á undan.
Eigið fé stóð í stað og nam 2.235,1 milljón Bandaríkjadala í árslok 2020 en 2.235,4 milljónum í árslok 2019 samkvæmt efnahagsreikningi.
Orkuverð lækkað á mörkuðum
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar segir í ársskýrslu fyrirtækisins fyrir árið 2020 að rekstur og afkoma Landsvirkjunar hafi óhjákvæmilega litast af áhrifum heimsfaraldursins.
„Viðskiptavinir okkar drógu margir úr framleiðslu vegna minnkandi eftirspurnar og lækkandi afurðaverðs, auk þess sem orkuverð lækkaði mjög á mörkuðum, þótt sú þróun hafi að nokkru gengið til baka síðla árs. Hluti raforkusamninga Landsvirkjunar er tengdur álverði og verði á raforku á Nord Pool-markaði.“
Þá hafi Landsvirkjun veitt viðskiptavinum sínum tímabundinn afslátt af rafmagnsverði til að koma til móts við stöðu þeirra og tekið þátt í átaki fyrir efnahagslífið með því að ráðast í ýmsar framkvæmdir og verkefni víðs vegar um landið.
Fréttin hefur verið uppfærð.