Curry skoraði þrjátíu stig þegar Golden State Warriors vann Cleveland Cavaliers, 101-119, í NBA-deildinni í nótt. Þetta var fjórði sigur Golden State í röð.
Curry var nokkuð lengi í gang í leiknum í Cleveland í nótt og átta fyrstu skot hans fyrir utan þriggja stiga línuna geiguðu. Curry hitti úr fjórum af þrettán þriggja stiga skotum sínum í leiknum sem þykir ekkert sérstaklega góð nýting á þeim bænum. Í síðustu þremur leikjum á undan leiknum í nótt hitti hann úr samtals 29 þriggja stiga skotum.
Í síðustu níu leikjum hefur Curry skorað 38,2 stig að meðaltali og er með stórkostlega skotnýtingu; 54,5 prósent í skotum utan af velli, 47 prósent í þristum og 91,8 prósent í vítum.
Curry er næststigahæsti leikmaðurinn í NBA á tímabilinu með 30,7 stig að meðaltali í leik. Aðeins Bradley Beal hjá Washington Wizards hefur skorað meira, eða 31,0 stig að meðaltali í leik.
Golden State er í 9. sæti Vesturdeildarinnar og er í góðri stöðu til að komast í umspil um sæti í úrslitakeppninni. Cleveland er hins vegar í þrettánda og þriðja neðsta sæti Austurdeildarinnar.
Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá brot úr leikjum Cleveland og Golden State, Boston Celtics og Los Angeles Lakers og Atlanta Hawks og Milwaukee Bucks auk flottustu tilþrifa næturinnar.

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.