Innlent

Í skýjunum með fulla rútu af neikvæðum unglingum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Álftamýrarskóli er hluti af Háaleitisskóla.
Álftamýrarskóli er hluti af Háaleitisskóla. Reykjavíkurborg

„Maður hefur sjaldan verið jafnglaður að heyra af fullri rútu af neikvæðum unglingum,“ segir Hanna Guðbjörg Birgisdóttir, skólastjóri Álftamýrarskóla. Nemandi í 9. bekk greindist með Covid-19 sem varð til þess að senda þurfti unglingadeild skólans í sóttkví. 9. bekkur var í skólaferðalagi á Laugarvatni þegar tíðindin bárust.

„Þau höfðu verið á Laugarvatni í tæpan sólarhring. Þegar það kom í ljós að nemandinn væri smitaður var ákveðið að þau færu öll heim, og fóru beint með rútunni í skimun,“ segir Hanna Guðbjörg.

Nemandinn sem í ljós kom að var smitaður af Covid-19 var ekki með í ferðinni þar sem hann var þá í sóttkví. Allir nemendur í 8., 9. og 10. bekk auk kennara verða í sóttkví til föstudags. Þá fara 9. bekkingarnir í seinni skimun og aðrir í eina skimun áður en þau losna úr sóttkví.

„Þetta er lítil unglingadeild með mikla nánd, alir á einum gangi. Svo það var ákveðið að taka svona á málunum,“ segir Hanna Guðbjörg. Vissulega hafi verið leiðinlegt að 9. bekkur hafi ekki getað lokið við skólaferðalagið.

„Það var náttúrulega alveg glatað. En frábær minning samt að vera einu grunnskólabörnin á Íslandi sem hafa farið saman í sýnatöku. En við verðum að gera eitthvað fyrir þessa krakka þegar þau eru komin til baka,“ segir Hanna Guðbjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×