Innlent

Kynnti fyrstu fjóra fyrir­myndar­á­fanga­staðina á Íslandi

Eiður Þór Árnason skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Stjórnarráðið

Gullfoss, Geysir, Þingvallaþjóðgarður og Jökulsárlón verða fyrstu áfangastaðirnir til að hefja ferli til að verða svonefndar Vörður. Um er að ræða nýtt verkefni á vegum stjórnvalda sem er ætlað að leggja drög að fyrirmyndaráfangastöðum sem teljast einstakir á lands- og heimsvísu.

Haft er eftir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra á vef Stjórnarráðsins að markmiðið sé að byggja upp þekkt merki sem ferðamenn vilji leita uppi við skipulagningu á ferðalögum sínum. Verða þeir áfangastaðir sem eru útnefndir Vörður markaðssettir sérstaklega til íslenskra og erlendra ferðamanna.

„Vörðum er ætlað að leiða ferðamenn áfram á leið sinni um landið og jafnframt að vera öðrum áfangastöðum fyrirmynd um stjórnun, umsjón, skipulag, aðbúnað, þjónustu, náttúruvernd, öryggi og annað sem varðar móttöku ferðamanna,“ segir Þórdís.

Þórdís kynnti Vörður á streymisfundi fyrr í dag. 

Til stendur að verja 700 milljónum í verkefnið að svo stöddu, 300 milljónum króna árið 2021 og 200 milljónum árin 2022 og 2023. Þá er stefnt að því að á árinu 2022 verði opnað á að fleiri staðir, meðal annars staðir í eigu einkaaðila, geti sótt um aðild að kerfinu.

Að sögn ferðamálamálaráðuneytisins verður um að ræða fjölsótta áfangastaði sem ferðamenn sækja allt árið um kring. Verður reynt að vinna að sjálfbærni við umsjón þeirra.

Geta Vörður bæði verið staðir þar sem töluverðir innviðir eru til staðar eða hreinlega engir.

„Staðirnir þurfa að sýna fram á langtímaskuldbindingu til þess að framfylgja skilgreindum viðmiðum við stjórnun og skipulagningu m.a. hvað varðar hönnun innviða, aðgengi, fræðslu, öryggi, álagsstýringu, stafræna innviði o.fl,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×