Westbrook sló þar með met Oscars Robertson sem hafði staðið frá 24. mars 1974. Robertson skoraði þá fjórtán stig, tók tíu fráköst og gaf tíu stoðsendingar í sigri Milwaukee Bucks á Portland Trail Blazers, 120-110. Það var 181. og síðasta þrenna Robertsons á ferlinum.
Westbrook bætti 47 ára gamalt met Robertsons þegar hann tók sitt tíunda frákast þegar átta og hálf mínúta var eftir af leiknum í Atlanta í nótt. Hann endaði með 28 stig, þrettán fráköst og 21 stoðsendingu. Westbrook fékk tækifæri til að tryggja Washington sigurinn undir lokin en þriggja stiga skot hans geigaði.
Eftir leikinn birti Washington myndband þar sem nokkrir af bestu leikmönnum heims óskuðu honum til hamingju með áfangann, þar á meðal Robertson sjálfur.
„Russell Westbrook, ég er mjög ánægður fyrir þína hönd. Fjölskylda þín er mjög stolt af þér,“ sagði Robertson.
Jason Kidd, sem er í 4. sæti þrennulistans, sendi Westbrook einnig kveðju. „Þvílíkur áfangi. Ótrúlegt. Þú skildir mig eftir fyrir löngu síðan. En núna verðurðu alltaf þekktur sem herra þrenna,“ sagði Kidd sem náði 107 þreföldum tvennum á ferlinum.
Washington er í 10. sæti Austurdeildarinnar og á leið í umspil um sæti í úrslitakeppninni. Westbrook kom til liðsins frá Houston Rockets í sumar.
Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá brot úr leikjum Atlanta og Washington, Golden State Warriors og Utah Jazz og San Antonio Spurs og Milwaukee Bucks auk flottustu tilþrifa næturinnar.

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.