Líkt og í Hlaðgerðarkoti í fyrstu þáttaröðinni, gerði Soffía Dögg nú breytingu á áfangaheimilinu Brú. Markmiðið var að gera sameiginlegt svæði fyrir íbúa, þar sem væri hægt að koma saman og styrkja félagsleg tengsl ásamt því að halda fundi.
Soffía Dögg ræddi rýmið við þær Helgu Lind Pálsdóttur félagsfræðing og forstöðukonu í Hlaðgerðarkoti og Ragnheiði B. Svavarsdóttur verkefnastjóra á Brú.
„Við erum með sjö fundi þarna í viku, bæði AA fundi og aðra grúppufundi, segir Ragnheiður B. Svavarsdóttir um notkunina á þessari setustofu. Svo er þetta bara félagsrými sem fólk getur hist í.“

Áfangaheimilið Brú er búsetuúrræði fyrir fólk sem er að koma úr áfengis- og vímuefnameðferð. Á Brú eru 18 einstaklingsíbúðir þar sem fólk getur búið í allt að tvö ár eftir meðferð. Markmið er veita samfellda þjónustu og styrkja einstaklinginn til virkrar samfélasgþátttöku.
„Áfangaheimili er rosalega mikilvægur partur af meðferðinni, því það er eitt að koma í meðferð í þrjá mánuði eins og hjá okkur í Hlaðgerðarkoti, en svo þegar þú kemur út úr meðferðinni þá þarftu að byrja lífið upp á nýtt,“ segir Helga Lind um þetta úrræði.
Hún segir að áframhaldandi stuðningur eftir meðferð sé gríðarlega mikilvægur fyrir einstaklinga sem eru að taka fyrstu skrefin út í samfélagið á ný eftir oft löng og erfið neyslutímabil.

Þær Helga og Ragnheiður sögðu að það þyrfti ekki að vera hægt að elda mat í rýminu svo eldavélin mátti fara, en þær voru spenntar fyrir þeirri hugmynd að fá ísskáp í staðinn. Íbúar eru 18 svo aðalatriðið var að það væri nóg af sætum fyrir alla.
Soffía Dögg vildi að rýmið myndi höfða til bæði karla og kvenna, tæki vel á móti fólki og væri kósý. Útkomuna má sjá í þættinum í spilaranum hér fyrir neðan. Eins og venjulega mælum við með því að lesendur horfi á þáttinn áður en lesið er áfram.
Nýtt parket, nýjar gardínur, hlýleg motta og fallega gráir veggir gjörbreyttu rýminu. Soffía Dögg fyllti svo rýmið af fallegum húsgögnum og skrautmunum.

Eldhúsinnréttingin var sprautuð í nýjum lit og borðplötu og hillum bætt við, sem kom virkilega vel út.

Soffía Dögg föndraði líka einstaklega falleg veggljós, sem lesa má nánar um í bloggfærslu á síðunni Skreytum hús.

„Þetta er ótrúlega flott,“ voru fyrstu viðbrögð Ragnheiðar. Hún játaði að breytingin hefði komið sér á óvart.
„Ég er bara orðlaus.“

Helga Lind segir að rýmið sé strax komið í notkun og íbúar áfangaheimilisins búnir að hittast í spila og pitsuveislu.
„Þetta var svolítið gott í hjartað.“
Í ítarlegri bloggfærslu á síðunni Skreytum hús er hægt að finna frekari upplýsingar um breytingarnar og þær vörur sem Soffía Dögg notaði til þess að breyta rýminu.

Hægt er að sjá breytinguna og horfa á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér ofar í fréttinni. Þættirnir eru sýndir á miðvikudögum hér á Vísi og fara samhliða því inn á Stöð 2+ efnisveituna.