Hálfur annar mánuður er liðinn síðan Elísabet Hulda hélt yfir Atlantshafið til keppni við önnur fögur fljóð úr öllum heimshornum. Elísabet Hulda var valin Miss Universe Iceland í október.
Hún segist á Instagram-síðu Miss Universe Iceland óþreyjufull fyrir úrslitakvöldinu. Ísland fylli hjarta hennar og að hún sé þakklát fyrir þetta tækifæri.
Elísabet Hulda hefur farið í hverja myndatökuna á fætur annarri undanfarna daga og var á meðal þeirra fimmtán sem þóttu skara fram úr í kvöldkjólakeppninni. Hún lýsti því í samtali við Vísi í mars að göngulag á hælunum, svipbrigði og að læra á möguleg myndavélasjónarhorn fyrir sjónvarpið væru atriði sem þyrfti að undirbúa vel.
„Ég myndi samt sem áður segja að stærsti undirbúningurinn felst í því að fylgjast vel með fréttum og vera viðstödd í nútímanum þar sem stór hluti í keppninni eru dómaraviðtölin og spurningar upp á sviði.“
Manúela Ósk Harðardóttir, framkvæmdastjóri keppninnar, er með Elísabetu Huldu í Hollywood.
Að neðan má sjá nokkrar myndir frá keppninni ytra.