Íslenski hópurinn hefur verið í sóttkví í tvo daga eftir að smit kom upp hjá meðlimi hans. Hinir í hópnum fengu neikvætt úr sýnatöku í gær en verða að fara í aðra í fyrramálið og fá neikvætt aftur til að geta stigið á svið í undankeppninni á fimmtudagskvöld.
Ekki mætt til að ganga á teppi
Hann segir sóttkvína ekki hafa sett stórkostlegt strik í reikninginn fyrir hópinn enda eigi keppendur almennt að halda sig nokkuð til hlés vegna smithættu í Rotterdam. „Það eina svona stóra er að við fengum ekki að fara á rauða dregilinn í Eurovision. En við höfum ekkert allt of miklar áhyggjur af því – við erum hérna til að keppa í Eurovision en ekki til að ganga á teppi.“
Finniði fyrir miklum áhuga á atriðinu úti?
„Já, við finnum fyrir rosa miklum áhuga. Sérstaklega eftir fyrstu æfinguna, hún gekk rosa vel og það er mjög vel tekið í þetta. Og fólk er mjög spennt að taka við okkur viðtöl og eitthvað. Ég held það sé mjög góð stemmning fyrir okkur.“
Spurður hvort hann finni fyrir nokkru stressi undir afar rólegu yfirbragði fyrir því að koma fram í beinni fyrir framan Evrópu segist Daði vera mjög slakur. „Ég held að það séu allir í hópnum bara nokkuð slakir. Stressið kemur þegar maður er kominn upp á svið og svo rétt áður en lagið byrjar. Þegar maður er svo byrjaður að syngja aðeins þá er þetta allt í lagi held ég,“ segir hann.
„Það eru svona fimmtán sekúndur áður en ég byrja að syngja þegar lagið er byrjað og við erum að halda sömu pósunni. Þessar fimmtán sekúndur geta alveg liðið eins og langur tími en ég hugsa að þetta verði allt í lagi.“
Hann kveðst þá bjartsýnn á gott gengi Íslands í keppninni í ár. Eins og er situr Ísland í fjórða sæti yfir sigurstranglegustu atriði keppninnar hjá öllum helstu veðbönkum. „Ég held að við eigum bara jafn miklar líkur og allir aðrir. Við setjum fókusinn á að komast í úrslitin á laugardaginn svo að það verði gott partý á Íslandi á laugardaginn. Svo sjáum við bara hvert fókusinn fer ef við komumst áfram.“