Washington mætir austurdeildarmeisturum Philadelphia 76ers í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Það leit alls ekki út fyrir að Washington gæti komist í úrslitakeppnina eftir skelfilegt gengi framan af leiktíð. Scott Brooks, þjálfari Washington, segir að Russell Westbrook hafi átt stóran þátt í að liðið skyldi ekki missa trúna á að það væri hægt.
Það hafði gengið á ýmsu vegna kórónuveirusmita og meiðsla, og Washington var 15 leikjum frá 50% sigurhlutfalli (17 sigrar, 32 töp), þegar Westbrook kallaði liðsfélaga sína saman til fundar. Þar flutti hann, samkvæmt Brooks, mjög ástríðufulla og beinskeytta ræðu sem gekk út á það að liðið myndi ekki missa af úrslitakeppninni. Nú hefur það raungerst.
Indiana sá aldrei til sólar í leiknum í gær og Washington náði mest 38 stiga forskoti. Westbrook skoraði 18 stig, átti 15 stoðsendingar og tók átta fráköst. Bradley Beal var stigahæstur með 25 stig. Sigurinn var svo öruggur að Beal gat hvílt sig allan fjórða leikhluta og Westbrook síðustu átta mínúturnar.
Einvígi Washington og Philadelphia hefst á sunnudaginn.
Aðeins einum leik er ólokið í hinu nýja umspili en það ræðst í nótt hvort það verða Memphis Grizzlies eða Golden State Warriors sem leika í úrslitakeppni vesturdeildarinnar.
The @WashWizards clinch the East #8 seed and will face Philadelphia in the First Round of the #NBAPlayoffs.
— NBA (@NBA) May 21, 2021
The @memgrizz and @warriors battle Friday at 9pm/et on ESPN for the West #8 seed! #StateFarmPlayIn pic.twitter.com/WGiLsslcjh

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.