Innlent

Anna­söm Euro­vision-nótt hjá lög­reglu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Talsvert var um tilkynningar um hávaða frá samkvæmum í heimahúsum í nótt. 
Talsvert var um tilkynningar um hávaða frá samkvæmum í heimahúsum í nótt.  Vísir/Vilhelm

Nokkuð annasöm nótt var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og mikið um tilkynningar vegna hávaða frá samkvæmum í heimahúsum. 110 komu inn á borð lögreglu frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Tveir voru stöðvaðir í Breiðholti í gærkvöldi og vegna hraðaksturs. Annar var stöðvaður eftir að hann mældist keyra á 92 kílómetra hraða á götu þar sem hámarkshraði er 60. Sá var einnig enn á nagladekkjum, sem hann verður sektaður fyrir. Hinn var stöðvaður á Breiðholtsbraut á 103 kílómetra hraða en þar er hámarkshraði 70.

Þrjú rafskútuslys komu inn á borð lögreglu, það fyrsta var tilkynnt á tólfta tímanum. Komið var þar að manni liggjandi utandyra í Vesturbæ og leiguhlaupahjól við hlið hans. Hann var töluvert blóðugur í andliti, efri vör hans var mjög bólgin og tvær tennur brotnar. Hlúð var að manninum á vettvangi.

Annað rafskútuslys var tilkynnt á svipuðum tíma í Garðabæ þar sem kona féll af hlaupahjólinu og var sögð meðvitundarlaus og að úr höfði hennar blæddi.

Umferðaróhapp varð í Kópavogi klukkan þrjú í nótt en ekkert slys varð á fólki. Ökumaðurinn var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og var hann vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.

Lögregla þurfti að hýsa nokkra í annarlegu ástandi í fangageymslum sínum í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×