Körfubolti

Diana Taurasi spilaði tvo leiki með brotið bringubein

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diana Taurasi er mögulega besti leikmaður allra tíma í WNBA-deildinni í körfubolta.
Diana Taurasi er mögulega besti leikmaður allra tíma í WNBA-deildinni í körfubolta. Getty/ Julio Aguilar

Körfuboltakonan Diana Taurasi verður frá keppni næstu fjórar vikurnar eftir að í ljós kom að hún er með brotið bringubein.

Málið er að Taurasi var búin að spila tvo leiki síðan hún meiddist 16. maí síðastliðinn en alvarleiki meiðslanna uppgötvaðist ekki fyrr en hún fór í sneiðmyndatöku.

Taurasi er stigahæsti leikmaður WNBA deildarinnar frá upphafi og vantar aðeins sex stig í að verða sú fyrsta í níu þúsund stig. Sú næststigahæsta í sögunni er Tina Thompson með 7488 stig.

Taurasi, sem er 38 ára gömul, er með 15,8 stig og 3,8 stoðsendingar að meðaltali með Phoenix Mercury liðinu á þessu tímabili sem er nýhafið.

Taurasi hefur ekki verið heppin með meiðsli að undanförnu en bakmeiðsli sáu til þess að hún missti af nær öllu 2019 tímabilinu.

Taurasi ætti að koma aftur í kringum 22. júní en þá eru þrjár vikur í það að WNBA deildin fer í frí vegna Ólympíuleikanna.

Taurasi er staðráðin að vera með á Ólympíuleikunum í Tókýó en það yrðu þá hennar fimmtu Ólympíuleikar. Diana hefur þegar unnið fjögur Ólympíugull á ferlinum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×